Skip to content

Frestunarárátta

Hver kannast ekki við þann leiða ávana að fresta hlutum og þá jafnvel út í það óendanlega? Það er að minnsta kosti ávani sem ég kannast sjálf allt of vel við og vel mætti segja að ég sé oft og tíðum illa haldin af frestunaráráttu.

Ég get frestað öllum andskotanum ef sá gállinn er á mér. Þessa dagana er ég rosalega dugleg við að fresta heimavinnunni fram á síðustu stundu, fresta því að setja í þvottavél og það sem mér þykir verst: að fresta því að moppa gólfin!

Ég veit ekkert af hverju ég á svona auðvelt með að sannfæra sjálfa mig um að ef ég fresta því að gera hlutina þá eigi ég eftir að gera þá á þeim tíma sem ég hef ákveðið að fresta þeim til. Yfirleitt enda ég á því að gera á síðustu stundu það sem ég hef ákveðið að fresta. Til dæmis að setja í þvottavél þegar allt er að verða skítugt eða moppa þegar dýrahárin eru orðin vel sjáanleg á gólfinu.

Þetta hljómar eins og ég sé algjör subba en það er þó fjarri lagi. Ég myndi einungis vilja vera duglegri við að gera þetta oftar.

Skýrasta dæmið um þennan leiða ávana hjá mér er í sambandi við bílprófið mitt. Eins og allir þeir sem taka bílpróf þá fékk ég fyrst bráðabirgðaskírteni sem entist í tvö eða þrjú ár. Ég hefði getað endurnýjað og fengið fullnaðarskírteni eftir eitt ár þar sem ég var punktalaus en mér fannst ekkert liggja á því.

Eftir að skírteinið rann út þá þurfti ég að fara í ökumat en ég beið með það í að minnsta kosti eitt og hálft ár og notaði þau rök fyrir sjálfa mig að það lægi ekkert á þessu þar sem ég átti ekki bíl og bjó á höfuðborgarsvæðinu. Ég dröslaðist þó að lokum í ökumat og náði því og fékk þetta fína blað sem sönnun fyrir því að ég kynni ennþá að keyra.

Þá rakst ég á næstu ástæðu til að fresta því að fá skírteni en hún var sú að nú þurfti ég að taka strætó frá Vesturbænum og upp í Kópavog með þetta blessaða blað. Ég skoðaði heimasíðuna hjá Strætó og komst að þeirri niðurstöðu að það væri allt of mikið vesen að taka strætó með þetta eina blað fyrir utan það að mér lá ekkert á að fá bílprófið.

Allt í einu voru liðin tvö ár frá því að skírteinið mitt rann út og ég fékk að vita að nú þyrfti ég að taka prófið aftur. Það er spurning hvenær ég læt verða af því.

Ég fresta ótrúlegustu hlutum eins og því að fá mér að borða þótt ég sé glorsoltin af því að ég er upptekin við eitthvað allt annað eins og að moppa gólfið eða setja í þvottavél. Eða þegar ég fresta því að fara á klósettið af því sakamálasagan sem ég er að lesa er svo rosalega spennandi og ég gæti fengið að vita í allra næstu köflum hver morðinginn er.

Stundum finnst mér frestunaráráttan mín vera að nálgast það að vera sjúkleg og því reyni ég að vinna hart í því að útrýma henni með öllum tiltækum ráðum. Það sem mér þykir hafa virkað best til þess að losna við þetta fyrirbæri sem áráttan er, er að reyna að banna mér að gera eitthvað sem mig langar til að gera þangað til verkefninu sem mig langar að fresta er lokið. Það er oft erfitt að setja sjálfri sér skorður en ég þarf að gera það ef ég ætla einhverntíma að losna undan þessu oki sem áráttan er.

Ef sakamálasagan er rosalega spennandi og ég þarf að fara á klósettið þá er ég farin að setja mér þau mörk að ég má í mesta lagi klára kaflann sem ég er að lesa þá stundina en ekki lesa fjóra eða fimm kafla eins og ég gerði oft hér áður fyrr.

Tölvan er líka alveg einstaklega góð gulrót og hefur hjálpað mér mikið með því einu að vera til og vera áhugaverð. Ég banna mér oft að fara í tölvuna fyrr en ég er búin að gera það sem ég þarf að gera og það kemur ósjaldan fyrir að ég sparka í rassinn á mér og banna mér að fara í tölvuna fyrr en ég er búin að moppa og setja í eina þvottavél.

Ég er ekkert viss um að ég eigi eftir að ná að sigrast endanlega á þörfinni fyrir að fresta hlutum, enda er hún oft og tíðum einstaklega freistandi. Ég hef þó fulla trú á því að ég muni smátt og smátt ná ágætis tökum á því að hafa aga á sjálfri mér í sambandi við þetta og vonandi á ég eftir að standa sjálfa mig að því einn daginn að hafa ekki frestað neinu í heila viku. Í dag er það fjarlægur draumur sem ég þokast þó nær og nær eftir því sem dagarnir líða.

Það verður stór sigur þegar ég stend með ökuskírteini í höndunum á ný. Ætli ég haldi þá ekki upp á það með því að setja í eins og eina þvottavél og moppa gólfið. Hvernig sem það allt saman fer þá get ég verið stolt af því hvað mér er þó búið að fara fram í þessum efnum síðustu þrjú árin og ef ég held áfram að vera dugleg að sparka í rassinn á mér þegar hugsunin um að fresta læðist inn í huga minn þá er ekki langt í að fólk muni sjá mig bruna um á bíl með skírteinið í veskinu.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s

%d bloggers like this: