Skip to content

„Símtalið er hljóðritað“

Símtalið er hljóðritað,“ segir röddin í Landsbankanum. Upptakan á að sanna hvað fram fer milli viðskiptavina og bankans. Enda eru viðskipti upp á milljónir og milljónatugi ákveðin í gegnum símann. Símtöl við bankann eiga að vera jafn marktæk og undirritaðir pappírar.
En varlega skyldi treysta öllu sem bankinn segir í símanum.

Taktu frekar lán, elsku vinur
Snemma árs 2008 ákvað ég að selja hlutabréf sem ég hafði eignast í Landsbankanum. Tunguliprir starfsmenn bankans á góðum bónusum sannfærðu mig um að skynsamlegra væri að fá yfirdráttarlán í japönskum jenum á lágum vöxtum og setja hlutabréfin frekar að veði fyrir láninu. Þessi vildarkjör sögðust þeir bjóða góðum viðskiptavinum svo þeir gætu síðar notið hækkandi gengis hlutabréfanna.

Ekki fór þó svo að hlutabréf Landsbankans hækkuðu, þrátt fyrir umfangsmiklar tilraunir stjórnenda hans til að falsa gengi þeirra. Þegar leið á árið hringdi starfsmaður úr bankanum og vildi fá aukin veð. Ég sagði honum að selja hlutabréfin í snatri og taka andvirði þeirra sem greiðslu fyrir láninu. Þau skýru fyrirmæli voru höfð að vettugi.

Síðan hrundi bankinn og hlutabréfin urðu verðlaus. Þar fór ævisparnaður minn. Ég sat hins vegar eftir með lán sem ég hafði aldrei ætlað að taka og starfsmenn bankans höfðu svikist um að borga upp með sölu hlutabréfanna þrátt fyrir skýr fyrirmæli – sem að sjálfsögðu voru hljóðrituð eins og vera ber.

Heimtuðu 27 milljónir fyrir 8 milljónir
Landsbankinn var endurreistur eftir hrun og fékk að kaupa eignir úr þrotabúinu á hrakvirði fyrir tilstilli Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra. Mitt lán fékk nýi Landsbankinn á 8 milljónir króna. Vel völdum úlfum úr fyrrum sölumannahjörð bankans var svo sleppt lausum á gömlu viðskiptamennina. Lögfræðideild bankans sendi út viðeigandi hótanir og heimtaði fulla greiðslu lánsins upp á 27 milljónir króna auk vaxta. Ég tjáði bankanum að þar sem ekki var farið að fyrirmælum mínum um uppgjör lánsins, þá yrði hann sjálfur að bera hallann af því. Ég benti bankanum á að hlusta á upptökurnar af símtölunum, þar kæmi þetta skýrt fram.

Bankinn fer í mál
Landsbankinn var á öðru máli og höfðaði innheimtumál á hendur mér árið 2014. Í málsvörn minni gerði ég kröfu um að fá afhentar símaupptökurnar úr bankanum, þar sem óskað var eftir auknum veðum og í kjölfarið beiðni minni um að skuldin yrði gerð upp með sölu hlutabréfanna. Dómarinn gaf bankanum 3 mánuði til að finna þessar upptökur, en bankinn sagðist engar upptökur finna. Dómarinn spurði hvort ég vildi reyna að sanna málsvörn mína á annan hátt og þáði ég það. Kom þá í ljós að ég gat fundið tvö vitni að þessum samskiptum mínum við bankann. Annað var vitni að símtali sem ég átti við starfsmann bankans og hitt vitnið mætti í bankann með mér á tilteknum degi þar sem ég ítrekaði kröfu mína um sölu bréfanna. Dómarinn tók framburð vitnanna góð og gild og sýknaði mig af kröfu bankans.

Benedikt bankavinur
En Jóhönnu Claessen, yfirmanni lánadeildar Landsbankans, fannst hreinn óþarfi að bankinn kyngdi eigin mistökum og ákvað að láta kné fylgja kviði. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar. Þar tóku við svo hraksmánarleg vinnubrögð Benedikts Bogasonar, dómsformanns í málinu, að það kallar á aðra blaðagrein. Benedikt taldi enga ástæðu til að krefja Landsbankann um upptökur símtalanna. Hann taldi mig heldur ekki hafa sannað eitt né neitt um samskipti mín við bankann og hundsaði framburð vitnanna. Niðurstaða Hæstaréttar Benedikts var því að ég ætti að borga Landsbankanum 27 milljónir króna og málskostnað, þrátt fyrir svikin, prettina og undanbrögðin sem bankinn hafði beitt mig.
Er stefna Landsbankans að týna óþægilegum upptökum?

Hvað eiga viðskiptavinir Landsbankans að halda um öryggi þess að símtöl séu hljóðrituð? Hvað ef ágreiningur kemur upp í framtíðinni, þar sem einstaklingur telur bankann hafa hlunnfarið sig? Ætlar Landsbankinn þá enn og aftur að bera fyrir sig að upptökurnar finnist ekki?

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: